Þetta er haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni í tilkynningu frá Kviku banka hf. þar sem greint er frá því að Kvika og hluthafar og stjórnendur Ortus Secured Finance Ltd. hafi náð saman um meginskilmála mögulegra kaupa Kviku á meirihluta hlutafjár Ortus.
Í tilkynningunni segir að Ortus sé breskt lánafyrirtæki sem veiti fasteignatryggð lán á Bretlandseyjum. Félagið hafi verið stofnað árið 2013 og stýri í dag lánasafni að fjárhæð 23 milljarða króna, þar af 14,5 milljörðum króna í beinni eigu Ortus.
Ef af kaupunum verður muni heildareignir Kviku aukast um 10 prósent. Kvika á nú þegar, í gegnum dótturfélagið Kvika Securities Ltd. um 15 prósent hlutafé í Ortus. Gert er ráð fyrir að Ortus skili hagnaði eftir skatta að jafnvirði 600 milljóna króna árið 2021, sem er 20 prósent aukning frá fyrra ári.
„Stoðir hf. eru í dag stærsti hluthafi Ortus og eiga samtals um 30% af hlutafé Ortus. Í samkomulaginu felst að Stoðir munu, ásamt öðrum hluthöfum, selja allan sinn hlut til Kviku og einnig munu stjórnendur selja hlut af sinni núverandi eign. Í framhaldi af kaupunum mun Kvika eiga tæplega 80% hlut í Ortus. Í ljósi þess að Stoðir er hluthafi í Kviku mun óháður sérfræðingur framkvæma sanngirnismat á viðskiptunum,“ segir í tilkynningunni.
Gert er ráð fyrir því að verðmæti hlutafjár Ortus nemi um 4,2 milljörðum króna. Stefnt er að því að ljúka viðskiptunum á næstu mánuðum.