Hiti verður frá fjórum stigum suðvestantil og niður í tíu stiga frost í innsveitum norðaustanlands, en draga mun úr frosti er líður á daginn.
Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir að það muni svo hvessa í nótt og í fyrramálið. Suðaustan stormur og talsverð rigning sunnan- og vestantil síðdegis á morgun, en hægari og þurrt í öðrum landshlutum fram undir kvöld. Hlýnar talsvert í bili.
Þeir sem huga á ferðalög er bent á að fylgjast með veðurspá og eins þeir sem eiga eftir að ganga frá lausamunum, að gera það í tíma.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Gengur í suðaustan 15-23 m/s með rigningu, en úrkomulítið norðanlands fram á kvöld. Hlýnandi veður, hiti 6 til 12 stig síðdegis, hlýjast í hnjúkaþey fyrir norðan.
Á sunnudag: Hvöss sunnanátt og rigning í fyrstu, en snýst síðan í hvassa suðvestanátt með skúrum eða éljum og kólnar. Þurrt norðaustantil á landinu.
Á mánudag: Stíf suðvestanátt með S-ströndinni, en annars mun hægari. Rigning eða slydda, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 0 til 7 stig, mildast með S-ströndinni.
Á þriðjudag: Suðvestlæg átt með slydduéljum og síðar éljum um landið S-vert, en norðaustlægari vindur NV-lands og snjókoma, annars þurrt. Kólnar í veðri.
Á miðvikudag: N-læg átt með éljum eða snjókomu, en þurrt sunnan heiða. Vægt frost víðast hvar.
Á fimmtudag: Útlit fyrir minnkandi norðanátt með dálitlum éljum fyrir norðan. Vaxandi austanátt um kvöldið og þykknar upp sunnantil