Erlent

Óbólu­­settir í út­­göngu­bann í Austur­­ríki

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Alexander Schallenberg, kanslari Austurríkis.
Alexander Schallenberg, kanslari Austurríkis. AP/Leutner

Stjórnvöld í Austurríki hafa tekið ákvörðun um setja útgöngubann á óbólusetta.  Breytingarnar taka gildi á miðnætti í kvöld og gilda í tíu daga. Brot á útgöngubanninu varðar rúmlega tvö hundruð þúsund króna sekt.

Með takmörkununum veðrur óbólusettum bannað að yfirgefa heimili sín, nema til að sinna hefðbundnum, daglegum verkefnum. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er óbólusettum því leyfilegt að versla í matinn, mæta til vinnu og fara út í göngutúr.

Yfirvöld í Austurríki hafa áhyggjur af útbreiðslu kórónuveirunnar en álag á heilbrigðiskerfið er mikið þar í landi, segir í frétt AP News.

„Það er okkar starf sem ríkisstjórn Austurríkis að vernda fólkið. Þess vegna ákváðum við, að frá og með mánudeginum, verður útgöngubann fyrir óbólusetta,“ segir Alexander Schallenberg, kanslari Austurríkis.

Útgöngubannið hefur áhrif á um tvær milljónir manna en tæplega níu milljónir búa í Austurríki. Aðeins 65% þjóðarinnar er fullbólusett en hlutfallið er með því lægsta í Evrópu. Rúmlega 11.500 manns smituðust þar í landi í gær.

Bannið tekur ekki til barna yngri en tólf ára, enda hafa bólusetningar ekki formlega hafist fyrir börn á þeim aldri í Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×