Kosið var til helmings sæta í fulltrúadeild argentínska þingsins og þriðjungs sæta í öldungadeildinni. Perónistar voru fyrir kosningar með rúman meirihluta þingsæta í efri deildinni og stærsta þingflokkinn í þeirri neðri.
Reuters-fréttastofan segir að þegar flest atkvæði hafa verið talin stefni í að íhaldsflokkar í stjórnarandstöðu sem hlutu slæma útreið í forsetakosningum fyrir tveimur árum hafi unnið mikilvæga sigra í helstu kjördæmum. Stjórnarflokkurinn tapaði meðal annars í höfuðborginni Buenos Aires, höfuðvígi sínu.
Vinsældir Fernández forseta hafa dvínað verulega í kórónuveirufaraldrinum. Verðbólgudraugurinn er farinn á kreik og argentínski pesóinn hefur ekki staðið veikar gagnvart dollara þrátt fyrir stíf fjármagnhöft.
Forsetinn hefur heitið því að leysa skuldavanda Argentínu í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og kveða niður verðbólguna. Liður í því er að senda langtímafjárhagsáætlun til þingsins á næstu vikum sem er talið ein forsenda nýs samnings við sjóðinn.
Argentína hefur verið að miklu leyti upp á náð og miskunn alþjóðlegra stofnana komin frá algeru efnahagshruni í landinu árið 2001. Milljónir Argentínumanna lentu þá neðan fátæktarmarka og hafa þurft að reiða sig á opinberar bætur frá ríkisstjórn perónista.