„Covid-19 er enn og aftur orðin helsta dánarorsökin í álfunni okkar,“ segir Dr. Kluge, svæðisstjóri yfir Evrópu hjá WHO, í samtali við Breska ríkisútvarpið.
Að hans sögn myndi víðtækari grímunotkun strax hjálpa mikið til.
Skyldubólusetningar verði lokaúrræði
Síðustu daga og vikur hafa tölur yfir nýsmitaða náð hámarki í fjölda landa, til dæmis á Íslandi.

Kluge nefndi þrjá þætti sem skýra þessa miklu útbreiðslu faraldursins síðustu vikur; vetrartímann, hátt hlutfall óbólusettra í ýmsum löndum og þá staðreynd að hér væri delta-afbrigði veirunnar ríkjandi.
Hann hvetur til þess að Evrópuríkin setji meira púður í bólusetningar þó hann vilji að bólusetningarskylda verði síðasta úrræði sem ríkin grípi til. Það væri þó kominn tími til að ræða þann möguleika af alvöru.
Austurríkismenn fóru þá leið að gera bólusetningu fyrir Covid-19 að lagalegri skyldu en sú ákvörðun hefur vakið hörð viðbrögð margra og orðið kveikja fjölmennra mótmæla víða um landið. Stærstu mótmælin voru í höfuðborginni Vín í dag en þau sóttu tugir þúsunda.