Fótbolti

Pissaði á ljósmyndara á meðan að Viðar spilaði og skoraði

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmaður Brann fær ekki að mæta á fleiri leiki liðsins eftir að hafa pissað á ljósmyndara.
Stuðningsmaður Brann fær ekki að mæta á fleiri leiki liðsins eftir að hafa pissað á ljósmyndara. brann.no

Norska knattspyrnufélagið Brann hefur sett stuðningsmann í bann frá leikjum vegna atviks sem átti sér stað í útileik liðsins gegn Sandefjord á sunnudaginn.

Viðar Ari Jónsson skoraði fyrra mark Sandefjord í leiknum, gegn sínum gömlu félögum, í 2-2 jafntefli. Það sem gekk á utan vallar vakti þó meiri athygli.

Einn stuðningsmanna Brann varð uppvís að því að kasta af sér vatni á ljósmyndara sem var að störfum við leikinn. Annar hrækti á axlir hans.

„Það er með ólíkindum að fullorðið fólk skuli geta hagað sér svona,“ sagði ljósmyndarinn Trond Reidar Teigen við BA en piss fór bæði á föt hans og myndavélabox hans.

Taldi sig heyra vatn renna

Teigen hélt að hann hefði heyrt vatn renna á bakvið sig en hugsaði ekki meira út í það og áttaði sig raunar ekki á hvað hefði gerst fyrr en að starfsmaður á vellinum lét hann vita í hálfleik. Atvikið hafði náðst á öryggismyndavél.

Maðurinn sem pissaði á Teigen var handtekinn og hefur eins og fyrr segir verið settur í bann frá leikjum Brann.

„Brann fordæmir þessa hegðun algjörlega og biður ljósmyndarann sem fyrir þessu varð innilegrar afsökunar,“ segir í yfirlýsingu frá Brann.

„Á mánudaginn fundaði Brann með stuðningsmanninum sem útskýrði sína hlið. Hann viðurkenndi allt og er fullur eftirsjár. Hann samþykkir refsingu félagsins,“ segir í yfirlýsingunni.

Forráðamenn Brann ætla ekki að tjá sig frekar um málið og segjast ætla að bíða eftir að rannsókn lögreglu ljúki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×