Afbrigðið, B.1.1.529, uppgötvaðist fyrst í Botswana þar sem það hefur nú fundist hjá þremur einstaklingum. Þá hafa sex tilvik verið greind í Suður-Afríku og eitt í Hong Kong en þar var um að ræða ferðamann sem var að koma frá Suður-Afríku.
SARS-CoV-2 er veiran sem veldur Covid-19 sjúkdómnum.
Tom Peacock, veirufræðingur við Imperial College London, deildi gögnum um afbrigðið á vefsíðu þar sem menn deila raðgreiningum SARS-CoV-2 og segir fjölda stökkbreytinganna á bindiprótíninu, eða broddprótíninu, vekja ákveðinn ugg.
Þá fylgjast veirufræðingar í Suður-Afríku náið með þróun mála, þar sem afbrigðið hefur fundist á svæðum þar sem faraldurinn er í vexti.
Ravi Gupta, prófessor í örverufræðum við Cambridge University, segir að tvær stökkbreytinganna virðist auka sýkingahæfni og auka getu afbrigðisins til að komast hjá ónæmiskerfinu.
Hins vegar sé ekki ljóst hversu smitandi afbrigðið sé en það sé til að mynda lykilþáttur í því hversu hratt Delta-afbrigðið hafi farið um heiminn.
Vísbendingar eru uppi um að stökkbreytingarnar hafi allar eða flestar orðið á sama tíma, mögulega hjá einum sjúklingi með veikt ónæmiskerfi og króníska sýkingu.
Francois Balloux, framkvæmdastjóri UCL Genetics Institute, segir ótímabært að hafa miklar áhyggjur af afbrigðinu enn sem komið er en fylgjast þurfi með því.