Sænska knattspyrnusambandið sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem kom fram að uppselt er á leik sænska kvennalandsliðsins í undankeppni HM í kvöld.
Det blir storpublik när Sverige tar emot Finland i VM-kvalet på Gamla Ullevi i morgon. https://t.co/mkjiw3354E
— SVT Sport (@SVTSport) November 24, 2021
Svíar mæta þá nágrönnum sínum Finnum á Gamla Ullevi leikvanginum. Svíar eru efstir í riðlinum með fullt hús eftir þrjá leiki en Finnar eru í öðru sæti, þremur stigum á eftir.
14.500 miðar voru í boði og nú eru þeir allir seldir. Mæti allt þetta fólk á völlinn verður sett nýtt áhorfendamet á leik sænska kvennalandsliðsins í Svíþjóð þegar frá eru taldir leikir liðsins á stórmóti.
„Áhorfendurnir eru mikilvægasta fólkið okkar fyrir utan völlinn og það er stórkostlegt að það sé uppselt á leikinn,“ sagði fyrirliðinn Caroline Seger í fréttatilkynningu sænska sambandsins.
„Það gefur okkur leikmönnunum mikla aukaorku að fá þessar fréttir í aðdraganda leiksins. Við munum gera allt okkar til að bjóða upp á góðan fótboltaleik. Okkur hlakkar til að spila fyrir framan alla þessa frábæru stuðningsmenn og búa til ógleymanlegt kvöld saman,“ sagði Seger.
Sveriges VM-kvalmatch utsåld: "Helt magiskt"https://t.co/haiQGyL9Lm pic.twitter.com/YfaSa6j01s
— Fotbollskanalen (@fotbollskanal) November 24, 2021
Það hafa bara mætt fleiri á kvennalandsleik í Svíþjóð þegar Svíar héldu EM sumarið 2013 en íslenska kvennalandsliðið fór einmitt í átta liða úrslitin á því móti.
Sænska kvennalandsliðið hefur ekki tapað leik á árinu 2021 fyrir utan úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum þegar liðið tapaði á móti Kanada í vítakeppni. Alls eru þetta 13 sigrar, 2 jafntefli og 1 tap í vítakeppni sem er magnaður árangur.
Svíar hafa unnið verðlaun á tveimur síðustu stórmótum en sænska liðið varð í öðru sæti á Ólympíuleikunum síðasta sumar og í þriðja sæti á HM sumar 2019.