„Þetta er fimmta Evrópumótið mitt,“ sagði Kolbrún sem hefur keppt í fullorðinsflokki á undanförnum þremur Evrópumótum. „Ég fór á mitt fyrsta mót þegar ég var tólf ára 2012 og hef verið hérna síðan.“
Kolbrún vann til silfurverðlauna með kvennaliðinu á EM 2016 og 2018 og var í tólf manna úrvalsliði síðustu þriggja Evrópumóta. Á EM á Íslandi 2014 var hún sú eina úr unglingaflokki í úrvalsliðinu.
En hvað sér Kolbrún fram á það að vera lengi að?
„Það er spurning. Við erum flestar í námi eða vinnu. Sjálf er ég í fullri vinnu og fullu námi með þessu og þetta er tímafrekt sport. Við æfum fimm sinnum í viku, þrjá klukkutíma í senn og stundum meira. En þetta er allt þess virði,“ sagði Kolbrún.

Hún ítrekar það að allt erfiðið og tíminn sem fari í fimleikana sé þess virði jafnvel þótt þær fái ekki krónu fyrir það.
„Það er alltaf gleðin og upplifunin að keppa á svona stórmóti fyrir Íslands hönd, það er bara draumur.“
Keppni í kvennaflokki á EM í hópfimleikum hefst klukkan 14:50 í dag. Hægt verður að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu á Vísi.