Í höfuðborginni Belgrad lokuðu mótmælendur stórri hraðbraut og brú sem tengir miðborgina við úthverfin. Sungnir voru mótmælasöngvar og mótmælendur héldu á skiltum þar sem áformum Rio Tinto var mótmælt.

Umtalsvert magn af liþíum er að finna í jörðu við bæinn Loznica og hefur Rio Tinto verið að kaupa landsvæði þar í kring en á enn eftir að fá grænt ljós frá yfirvöldum til að hefja námugröft. Forstjóri Rio Sava, dótturfyrirtækis Rio Tinto í Serbíu, segir að fyrirtækið ætli að fjárfesta fyrir 2,4 milljarða dollara í verkefninu en liþíum er meðal annars notað til að framleiða rafgeyma í bíla.
Serbneski tennisleikarinn Novak Djokovic er meðal þeirra sem hefur tjáð sig um málið á Instagram en hann birti mynd af mótmælunum og skrifaði að hreint loft, vatn og matur væru grundvöllur fyrir góðri heilsu. Án þessara hluta væri allt tal um góða heilsu fáránlegt.
„Þeir leyfa erlendum stórfyrirtækjum að gera það sem þau vilja í okkar landi. Allir geta komið og tekið það sem þeir vilja,“ sagði einn mótmælendanna en Aleksander Vucic forseti Serbíu hefur fengið mikla gagnrýni í málinu fyrir að gera fyrirtækinu kleift að eignast land með ólögmætum hætti og hunsa umhverfisáhrif framkvæmdanna.
Kosningar fara fram í Serbíu á næsta ári og hafa gagnrýnendur mótmælanna sakað þá um að mótmælin séu tilraun til að grafa undan Vucic í aðdraganda þeirra.
Í júlí birtust fréttir um það að Rio Tinto hefði samþykkt að kosta rannsóknir vegna umhverfisáhrifa Panguna námunnar á eyjunni Bougainville en fyrirtækið flúði þaðan árið 1989. Á eyjunni var á sínum tíma ein stærsta gull- og koparnáma í heimi.