Í vikunni skrifaði Bergsveinn grein sem birtist á Vísi þar sem hann sakaði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra um umfangsmikinn ritstuld. Sagði hann engan vafa leika á að Ásgeir hafi stuðst við bók Bergsveins, Leitina að svarta víkingnum, í bók sinni Eyjan hans Ingólfs. Ásgeir neitaði ásökununum.
Nú hefur Finnbogi Hermansson, rithöfundur í Hnífsdal, stigið fram með ásakanir um ritstuld á hendur Bergsveini. Í viðtali við mbl.is segir Finnbogi að árið 2003 hafi hann skrifað bókina Einræður Steinólfs, ævisaga Steinólfs Lárussonar bónda á Skarðsströnd í Dölum. Í bók Bergsveins, Svar við bréfi Helgu, frá árinu 2010 komi síðan að nokkru leyti sama orðalag og í sinni bók.
„Eftir því sem Bergsveini Birgissyni hefur vaxið fiskur um hrygg sem rithöfundi og fræðimanni ætti ég eiginlega að vera stoltur af því að hann skuli hafa þurft að stela mínum textum.“
Finnbogi segir að töluvert sé liðið síðan hann fékk ábendinguna um frásögn Bergsveins. Hann hafi þó ekki gert neitt í málinu.
„Ég hef heldur enga siðanefnd til að klaga í, hvað þá dómstóla á Norðurlöndum sem einn skáldyrðingur á 66 gráðum norður,“ segir Finnbogi í viðtalinu við mbl.is.