Fótbolti

Komust upp í gær en létu Böðvar og þrjá aðra fara í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Böðvar Böðvarsson spilar væntanlega ekki með Helsingborg í sænsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.
Böðvar Böðvarsson spilar væntanlega ekki með Helsingborg í sænsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. EPA-EFE/Artur Reszko

Helsingborg tryggði sér sæti í sænsku úrvalsdeildinni í gær með 3-1 sigri á Halmstad í umspili. Liðið komst því strax aftur upp.

Böðvar Böðvarsson kom til liðsins í ár og lék 29 leiki með því í deild og umspili.Böðvar var í byrjunarliðinu í sigurleiknum í gær og spilaði fyrstu 64 mínútur leiksins.

Sænska félagið tilkynnti eftir árangurinn í gær að Hafnfirðingurinn væri einn af þeim sem er á förum. Böðvar er þar í hópi með þeim Noel Mbo, Alhaji Gero og Vladislav Kreida.

Böðvar er 26 ára vinstri bakvörður sem kom til HIF frá pólska félaginu Jagiellonia Bialystok þar sem hann hafði spilað síðan hann yfirgaf FH árið 2018.

„Böddi hefur spilað þrjátíu leiki í ár og hefur verið mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Við höfum ekki tekið hundrað prósent ákvörðun með framtíðina hjá honum en höfum í það minnsta ekki boðið honum samning. Það þýðir að honum er nú frjálst að semja við annað félag,“ sagði Andreas Granqvist, íþróttastjóri Helsingborg, í viðtali við heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×