Að minnsta kosti 72 létu lífið þegar fleiri en 40 fellibylir fóru yfir Kentucky og þá létust 20 til viðbótar í nágrannaríkjum.
Meðal þeirra sem komust heilir á húfi undan óveðrinu var Clara Lutz, sem greindi fréttastöðinni WFIE-TV frá því að hún hefði komið barnabörnum sínum, Kaden 15 mánaða og Dallas 3 mánaða, fyrir í baðkari með teppi, kodda og biblíu.
Skömmu síðar fór hús hennar í Hopkins-sýslu að hristast.
„Það næsta sem ég vissi var að baðkarið tókst á loft og ég missti tak á því. Ég gat ekki haldið í það... ég bara... Guð minn góður,“ sagði Lutz.
Lutz fékk vatnstank baðkarsins í höfuðið þegar fellibylurinn hrifsaði húsið af grunninum. Hún sagðist hafa leitað alls staðar í brakinu að barnabörnunum. „Allt sem ég gat gert var að segja: Guð, færðu mér börnin aftur heil á húfi. Gerðu það, ég bið þig.“
Hún fann að lokum baðkarið á hvolfi í garðinum og börnin lifandi undir því.
Dallas var með kúlu á höfðinu og var flutt á sjúkrahús með heilablæðingu en blæðingin stoppaði áður en Lutz kom á spítalann. Amman sagði foreldra barnanna búa í norðurhluta sýslunnar og að húsið þeirra hefði næstum alveg sloppið undan óveðrinu.