Fyrir tímabilið 2009 voru KR-ingar í þjálfaraleit eftir að Benedikt Guðmundsson steig frá borði eftir að hafa unnið tvo Íslandsmeistaratitla á þremur árum. Böðvar horfði meðal annars til Suðurnesjanna og vildi fá Sigurð sem hafði unnið fjölda titla með karla- og kvennalið Keflavíkur og þjálfað karlalandsliðið.
„Ég var búinn að fylgjast lengi með Sigga. Hann var leikmaður í Keflavíkurliðinu þegar ég var að spila, grjótharður, og svo fylgst með honum þjálfa. Hann var klárlega kandítat sem myndi falla inn í kúltúrinn hérna, mikill sigurvegari,“ sagði Böðvar.
Sigurður sagði á endanum nei við KR og Böðvar sendi honum þá tóninn í viðtali í Fréttablaðinu.
„Hann hafnaði okkur á lokasprettinum. Ég var rosalega sár. Á þessum tíma var ég ungur og vitlaus. Varst það ekki þú sem hringdir í mig?“ spurði Böðvar Henry sem svaraði játandi.
„Einhverra hluta vegna náðir þú út úr mér eftirfarandi setningu: Sigurður hefur ekki pung til að taka við KR. Eftir á hugsaði ég að þetta væri kannski aðeins of mikið sem þetta var. En þetta var komið í loftið og ekkert hægt að breyta því.“
Daginn eftir fékk Sigurður spurningu dagsins í Fréttablaðinu. Þar var hann spurður að því hvort skot Böðvars hafi verið fyrir neðan belti. Sigurður svaraði: Já, frá lélegri skyttu.
„Þá vissi ég að Sigurður tók þetta ekkert nærri sér. Hann svaraði bara fullum hálsi og málið dautt,“ sagði Böðvar.
Páll Kolbeinsson stýrði KR tímabilið 2009-10 en eftir það tók Hrafn Kristjánsson við liðinu og gerði það að tvöföldum meisturum 2011.