Erlent

Québec hyggst skatt­leggja óbólu­setta íbúa sér­stak­lega

Atli Ísleifsson skrifar
François Legault, forsætisráðherra Quebec, segir að um sanngirnismál sé að ræða.
François Legault, forsætisráðherra Quebec, segir að um sanngirnismál sé að ræða. Getty

Stjórnvöld í kanadíska fylkinu Québec hafa ákveðið að koma á sérstökum skatti fyrir óbólusetta íbúa. Reiknað er með að skattheimtan hefjist á næstu vikum.

Kórónuveiran hefur verið sérstaklega útbreidd í Québec og hafa nú 12 þúsund dauðsföll í fylkinu verið rakin til Covid-19.

BBC segir frá því að tæplega 13 prósent fullorðinna íbúa Québec séu óbólusettir, en um helmingur þeirra sem eru inniliggjandi á sjúkrahúsi með Covid-19 koma úr þeim hópi.

François Legault, forsætisráðherra Québec , segir að um sanngirnismál að ræða. Níutíu prósent íbúa hafi fært miklar fórnir og telur hann stjórnvöld skulda þeim bólusettu aðgerð í þessa veru.

Legault segir að enn eigi eftir að ákveða endanlega upphæð, en segir ljóst það muni muna um hana. Þeir sem af læknisfræðilegum ástæðum geta ekki þegið bólusetningu verða undanþegnir hinum nýja skatti.

Útgöngubann á nóttunni

Québec er það fylki Kanada þar sem fjöldi smitaðra hefur verið mestur í Kanada. Um níu þúsund manns hafa greinst á sólarhring að undanförnu og eru nú tæplega þrjú þúsund þar inniliggjandi á sjúkrahúsi með Covid-19.

Útgöngumann er í gildi í fylkinu milli klukkan 22 á kvöldin og til fimm á morgnana.

Québec er ekki eina svæðið þar sem fjárhagslegar kvaðir eru lagðar á óbólusetta. Þannig munu allir þeir sem eru óbólusettir og eldri en sextíu ára í Grikklandi þurfa að borga hundrað evru sekt í hverjum mánuði á meðan þeir eru óbólusettir. 

Í Singapúr þurfa óbólusettir að greiða helming heilbrigðiskostnaðar vegna meðferðar sökum Covid-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×