Fyrir leik Kamerún og Eþíópíu höfðu 12 leikir farið fram á Afríkumótinu. Níu þeirra enduðu 1-0, tveir enduðu með markalausu jafntefli og heimamenn í Kamerún unnu opnunarleikinn gegn Búrkina Fasó 2-1.
Fyrstu mínútur leiksins í dag voru heldur betur fjörugar, en eftir aðeins átta mínútna leik var búið að skora tvö mörk og dómari leiksins var búinn að veifa gula spjaldinu tvisvar.
Dawa Hotessa Dukele kom Eþíópíu yfir strax á fjórðu mínútu áður en Karl Toko Ekambi jafnaði metin með skalla fjórum mínútum síðar. Í millitíðinni náðu Martin Hongla og Eric Maxim Choupo-Moting sér í gult spjald í liði heimamanna.
Ekki var skorað meira í fyrri hálfleik, en Vincent Aboubakar kom heimamönnum í 2-1 á 53. mínútu. Hann var svo aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar þegar hann breytti stöðunni í 3-1.
Karl Toko Ekambi skoraði annað mark sitt og fjórða mark Kamerún á 67. mínútu og tryggði heimamönnum þar með öruggan 4-1 sigur.
Kamerún er komið upp úr A-riðli eftir sigur dagsins, en liðið er með sex stig eftir tvo leiki. Eþíópía er hins vegar enn án stiga og þarf á kraftaverki að halda til að fara áfram.