Körfubolti

Íslenska landsliðið má spila á Íslandi: Ólafssalur fékk undanþágu frá FIBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson fær vonandi leyfi frá Valencia til að spila sinn fyrsta heimaleik í meira en tvö ár.
Martin Hermannsson fær vonandi leyfi frá Valencia til að spila sinn fyrsta heimaleik í meira en tvö ár. FIBA

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta hefur verið heimilislaust eftir að Laugardalshöllin datt úr vegna vatnsskemmda því liðið fékk ekki leyfi frá FIBA til að spila á heimavelli í undankeppni HM í lok síðasta árs. Nú hefur Ólafssalur á Ásvöllum fengið sérstaka undanþágu frá FIBA.

Í næsta mánuðu fer fram landsliðsgluggi hjá landsliði karla í körfuknattleik þegar liðið á tvo leiki á dagskránni í undankeppni HM 2023 en þeir eru báðir gegn Ítalíu. Leikið verður heima og að heiman en fyrri leikurinn er hér á landi og svo fer sá síðari fram á Ítalíu.

Heimaleikur Íslands verður í Ólafssal að Ásvöllum í Hafnarfirði fimmtudaginn 24. febrúar og útileikurinn fer fram sunnudaginn 27. febrúar í Pala Dozza höllinni í Bologna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá KKÍ.

Í nóvember síðastliðnum fékk kvennalandsliðið heimild til að leika í Hafnarfirði með sérstöku leyfi FIBA og tókst það vel til.

FIBA hefur samþykkt sérstaka ósk KKÍ um að leika heimaleikinn í Ólafssal að Ásvöllum með því að uppfylla aftur kröfur FIBA um allan búnað og aðstöðu.

Laugardalshöllin er enn óstarfhæf líkt og áður og sér ekki fyrir endann á því hvenær hún verður tilbúin til notkunar á ný. FIBA gaf leyfi nú fyrir Ólafssal fyrir þessum eina heimaleik þar sem ríkisstjórn Íslands hefur sett málefni þjóðarleikvangs inniíþrótta í forgang og í vor á að vera kominn niðurstaða í þá vinnu.

Það kostar aukavinnu og hjálpa frá Laugardalshöll til að færa heimaleikinn yfir á Ásvelli. KKÍ þarf að fá talsvert af búnaði að láni frá Laugardalshöll svo hægt sé að gera Ólafssal leikhæfan samkvæmt kröfum FIBA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×