Það áttu að vera fjórir leikir í deildinni í kvöld en þremur þeirra var frestað vegna kórónuveirusmita.
Leikur Njarðvíkur og Þórs hefst klukkan 18.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Þórsarar hafa tapað síðustu þremur leikjum sínum í Ljónagryfjunni og ekki unnið þar í rúm fimm ár eða síðan 1. desember 2016.
Þórsliðið vann þá 105-94 sigur á Njarðvík í Ljónagryfjunni þar sem Darrel Keith Lewis (25 stig), Þröstur Leó Jóhannsson (19 stig á 24 mínútum), Danero Thomas (17 stig, 7 fráköst, 7 stoðsendingar) og Tryggvi Snær Hlinason (13 stig) voru í aðalhlutverki hjá Akureyringum.
Það merkilegast við að þetta hafi verið síðasti sigur Þórsliðsins í Njarðvík er að þjálfari Þórsliðsins í leiknum var Benedikt Guðmundsson.
Benni Gumm er nefnilega þjálfari Njarðvíkurliðsins í dag. Hann hætti með Þórsliðið eftir tímabilið en tók síðan við Njarðvíkingum síðasta sumar.
Í heimsóknum sínum í Ljónagryfjuna undanfarin ár hafa Þórsarar tapað með 10 stigum (84-74, 8. febrúar 2018), með 61 stigi (113-52, 15. nóvember 2019) og með 22 stigum (97-75, 2. maí 2021) á síðasta tímabili.
Njarðvík vann fyrri leik liðanna í vetur með átján stigum (109-91) á Akureyri í október.

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.