„Við þurfum að koma okkur niður á jörðina og mæta klárir í næsta leik,“ sagði Ómar Ingi Magnússon eftir átta marka sigurinn gegn Frökkum á laugardaginn. Hárrétt.
Við sem spilum ekki leikina getum hins vegar verið áfram í skýjunum, í draumalandinu sem Ómar og félagar hafa búið til fyrir okkur, og leyft okkur að fabúlera um það hvaða þýðingu sigurinn stóri á Ólympíumeisturunum hefur.
Fjórum sigrum frá fyrsta titlinum
Staðan er núna þannig að ef Ísland vinnur næstu fjóra leiki verður liðið Evrópumeistari í handbolta í fyrsta sinn.
Vinni liðið næstu þrjá leiki kemst það í úrslitaleik EM í fyrsta sinn.
Vinni Ísland næstu tvo leiki kemst liðið í undanúrslit EM í þriðja sinn í sögunni (Ísland endaði í 4. sæti 2002 og vann brons árið 2010).
Einn tilgangur þessarar greinar er svo að benda á að mögulegt er að með því að vinna annan af þeim tveimur leikjum sem Ísland á eftir í milliriðli, gegn Króatíu í dag eða Svartfjallalandi á miðvikudag, komist liðið í undanúrslit.
Sex stig dugðu Slóveníu síðast
Í þessu sambandi má til dæmis nefna að Slóvenía komst í undanúrslit á síðasta EM, með því að fá 6 stig í milliriðli. Ísland er einum sigri frá þeim stigafjölda.
Þegar tvær umferðir eru eftir af milliriðlakeppninni er Danmörk efst í okkar riðli með 6 stig, Frakkland og Ísland eru með 4 stig, Holland og Svartfjallaland með 2 stig, en Króatía er án stiga og á ekki lengur von um að komast í undanúrslit.
Aðeins tvö efstu lið riðilsins komast í undanúrslit, þar sem liðið í 1. sæti mætir liðinu í 2. sæti úr hinum milliriðlinum, og öfugt.

Ísland er öruggt um að enda í 1. eða 2. sæti með því að vinna síðustu tvo leikina sína, því Danmörk og Frakkland eiga eftir að mætast á miðvikudagskvöld.
Ef Ísland, Danmörk og Frakkland enda jöfn að stigum yrði Ísland aldrei neðst þeirra, þar sem liðið vann Frakka með átta marka mun en tapaði aðeins með fjórum gegn Dönum.
Það er nefnilega þannig að ef tvö eða fleiri lið enda jöfn að stigum þá ráða innbyrðis úrslit stöðu þeirra í riðlinum.
Tvær síðustu umferðirnar í milliriðli 1:
- Mánudagur 24. janúar:
- 14.30 ÍSLAND - Króatía
- 17.00 Danmörk - Holland
- 19.30 Svartfjallaland - Frakkland
- Miðvikudagur 26. janúar:
- 14.30 Svartfjallaland - ÍSLAND
- 17.00 Holland - Króatía
- 19.30 Danmörk - Frakkland
Tap í dag útilokar ekki verðlaun
Ef Ísland tapar gegn Króatíu í dag er enn möguleiki á að komast í undanúrslit með því að vinna Svartfjallaland, ef Frakkland tapar annað hvort gegn Svartfjallalandi eða Danmörku (fleiri, langsóttari möguleikar eru í stöðunni).
Ef Ísland vinnur hins vegar Króatíu, sem aldrei hefur tekist þrátt fyrir sjö tilraunir á stórmótum, er útlitið orðið afar bjart. Sigur gegn Svartfjallalandi myndi þá skila liðinu í undanúrslit, og til vara væri hægt að vonast eftir því að Frakkland vinni Svartfjallaland í dag og tapi svo gegn Danmörku.