Mikið hefur verið fjallað um nýja stólalyftu sem nær í um eitt þúsund metra hæð upp í fjallið. Upphaflega átti hún að vera tilbúin árið 2018 en tafir við framkvæmdir, Covid-19 og óhagstætt veður hefur gert það að verkum að enn á eftir að vígja hana.
Skíðaiðkendur bundu því margir hverjir vonir við að lyftan kæmist í gagnið þegar skíðavertíðin hæfist nú í vetur. Greint var hins vegar frá því fyrr í vetur að einhverjar tafir myndu verða á opnuninni þar sem sterkir vindar í fjallinu hafi valdið skemmdum á stólunum í lyftunni.

Nú er hins vegar búið að styrkja stólana þannig að þeir ættu að þola veður og vind í fjallinu. Staðan er nú þannig að búið er að fela Brynjari Helga Ásgeirssyni, forstöðumanns Hlíðarfjalls, að undirbúa opnun lyftunnar um miðjan febrúar.
„Bæjarráð felur forstöðumanni Hlíðarfjalls í samstarfi við sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs að undirbúa formlega opnun nýrrar lyftu og er stefnt að opnun um miðjan febrúar ef veður leyfir,“ segir í bókun bæjarráðs Akureyrar sem samþykkt var á síðasta fundi bæjarráðs en sveitarfélagið á og rekur skíðasvæðið í Hlíðarfjalli.