Danmörk tapaði leiknum með eins marks mun, 29-30, og fyrir vikið komst Ísland ekki í undanúrslit Evrópumótsins.
Íslendingar voru margir hverjir ósáttir eftir leikinn og létu gamminn geysa á samfélagsmiðlum. Einhverjir gengu enn lengra og sendu leikmönnum og þjálfurum danska liðsins ógeðfelld skilaboð.
Frederik G. Schmidt, fjölmiðlafulltrúi danska handknattleikssambandsins, greindi frá þessu á Twitter í dag. Hann segir ekkert til í því að danska liðið hafi tapað leiknum viljandi.
„Ég er ekki hrifinn af sumum skilaboðum sem leikmönnum og þjálfarateyminu hafa borist eftir leikinn gegn Frakklandi í gærkvöldi. Nei, þeir töpuðu ekki viljandi. Og nei, maður á ekki skilið að deyja bara vegna þess að maður tapar handboltaleik,“ skrifaði Schmidt á Twitter.
Jeg er slemt imponeret over nogle af de beskeder, der lander i spillernes og trænerteamets indbakker efter kampen mod Frankrig i aftes. Nej, de har ikke tabt med vilje. Og nej, man fortjener ikke at dø, blot fordi man har tabt en håndboldkamp. #hndbld #ehfeuro2022
— Frederik G. Schmidt (@Frederik_GS) January 27, 2022
Það voru ekki bara leikmönnum og þjálfurum danska liðsins sem bárust subbuleg skilaboð eftir leikinn heldur einnig danska handboltamiðlaranum Rasmus Boysen.
Danir mæta Spánverjum í undanúrslitum EM á morgun. Í hinum undanúrslitaleiknum eigast Frakkar og Svíar við. Íslendingar mæta hins vegar Norðmönnum í leiknum um 5. sætið.