Ríkisstjórnin kemur saman til fundar í fyrramáli þar sem farið verður yfir hvernig staðið verður að afléttingu sóttvarnaaðgerða. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur fengið í hendurnar minnisblað frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni með tillögum um afléttingar.
Willum Þór sagði á Alþingi í dag stöðuna gjörbreytta frá því sem var fyrir hálfum mánuði síðan.
„Þess vegna erum við að boða afléttingaráætlun en við erum að erum að gera það á grundvelli upplýsinga og stöðunnar hverju sinni og ég verð að minna á það að við erum enn þá með almannavarnir á neyðarstigi og spítalanna á neyðarstigi.“
Metfjöldi fólks greindist með kórónuveiruna í gær innanlands eða 1.567.
Þá hefur veiran valdið hópsýkingum á hjúkrunarheimilum síðustu daga þar á meðal á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi. Þar er um helmingur íbúa með veiruna en flestir eru lítið eða ekkert veikir. Nokkur fjöldi starfsmanna er hins vegar í einangrun eða sóttkví og því frá vinnu.
Þrátt fyrir að færri sjúklingar liggi inni á Landspítalanum en fyrir hálfum mánuði síðan starfar spítalinn enn á neyðarstigi. Hann mun gera það áfram að minnsta kosti fram í næstu viku samkvæmt svörum frá spítalanum en fjarvera starfsmanna í einangrun með kórónuveiruna spilar þar þungt inn í.
Metfjöldi starfsmanna er nú í einangrun eða tvö hundruð og nítján starfsmenn. Þá getur það fylgt afléttingu takmarkana í samfélaginu að fleiri starfsmenn greinist með veiruna og verði frá vinnu.
„Mun það valda auknum smitum mögulega. Við sjáum það hér á næstu dögum og þetta verða snúnar næstu vikur en það er alveg ástæða til miðað við hvernig þetta er að þróast að við getum farið í afléttingar og við munum boða afléttingaráætlun hér á morgun.“