Sindri Þór byrjaði leikinn og var Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, spurður út í einn af sínum nýju leikmönnum í viðtali við Fótbolti.net eftir leik.
„Hann stóð sig frábærlega og var yfirvegaður á boltann. Jökull (Elísabetarson, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, þekkir hann mjög vel og ég þekki hann. Við vildum fá hann til félagsins, í Stjörnuna og hann passar mjög vel inn í þetta hjá okkur,“ sagði Ágúst eftir leik en Jökull þjálfaði Augnablik á síðustu leiktíð og þekkir því vel til Sindra.
Sindri Þór er fæddur 1998 en hefur aðeins leikið í 3. deild með Augnabliki eftir að hann gekk upp úr 2. flokk Breiðabliks. Alls á hann að baki 71 deildar- og bikarleik en gæti nú leikið í deild þeirra bestu í sumar.
„Hann getur örugglega spilað allar stöður á vellinum. Hann leysir miðvarðarstöðuna mjög vel og við erum sáttir við það,“ bætti Ágúst við að endingu.
Hægt verður að sjá Sindra Þór og aðra nýja leikmenn Stjörnunnar beint á rásum Stöðvar 2 Sport þegar Lengjubikarinn fer af stað í febrúar. Valdir leikir verða sýndir beint og þá verða markaþættir á dagskrá eftir hverja umferð.