Lögreglumennirnir voru skotnir þar sem þeir voru að sinna umferðareftirliti í vesturhluta Þýskalands skömmu eftir klukkan fjögur í nótt. Í frétt Breska ríkisútvarpsins segir að hin látnu hafi verið 29 ára karlmaður og 24 ára gömul kona.
Lögregla leitaði tilræðismannanna í dag og handtók þá á fimmta tímanum að staðartíma. Hinir handteknu eru menn á fertugsaldri, einn 38 ára gamall auk annars 32 ára en sá síðarnefndi var hnepptur í gæsluvarðhald til bráðabirgða.
Lögregla hefur litlar upplýsingar veitt um málið og enn er óljóst hvað nákvæmlega skeði í árásinni. Lögreglan varaði fólk meðal annars við að bjóða puttaferðalöngum far á þessum slóðum eftir árásina.
Þýskir fjölmiðlar greina frá því að lögreglumennirnir hafi tilkynnt stjórnstöð um grunsamlega bifreið og skömmu síðar hafi lögreglumennirnir látið vita að verið væri að skjóta á þá.
Þegar þeim barst liðsauki var einn lögreglumannanna látinn en hinn lést skömmu síðar á vettvangi.