Dolce & Gabbana er nýjasti tískurisinn á þessum vagni en þetta ítalska lúxus merki gaf út yfirlýsingu á dögunum um að þau ætluðu með öllu að hætta með feldinn. Þess í stað ætla þau sér að þróa vistvænan gervifeld í nýjar glæsiflíkur. Yfirlýsingin var gerð í samstarfi við dýraverndarsamtökin Humane Society International.
Tískuheimurinn axli ábyrgð
Með þessu vill Dolce & Gabbana vinna að umhverfisvænni framtíð og segir markaðsfulltrúi fyrirtækisins, Fedele Usai, að tískuheimurinn í heild sinni gegni mikilvægu og samfélagslegu ábyrgðarhlutverki þegar það kemur að umhverfismálum. Tískuheimurinn hefur fengið á sig slæmt orðspor hvað þetta varðar og því er mikilvægt að hvetja aðra hönnuði og verslanir til að velja vistvænni leiðir.
Loðlaus hátíska
Önnur þekkt merki á borð við Chanel, Prada og Burberry hafa áður gefið svipaðar yfirlýsingar og virðist nú loðfeldurinn tilheyra fortíðinni í hátískuheiminum. Ítalska merkið Gucci var eitt af fyrstu hátískuhúsunum til að fylgja þessu eftir árið 2017 en þau eru undir sama hatti og merkin Yves Saint Laurant, Alexander McQueen og Balenciaga, sem ætla að fylgja þessum loðfelda fría straumi fyrir haustið 2022.
Konunglega leiðin
Elísabet Englandsdrottning lætur sig ekki vanta í þessa mikilvægu og umhverfisvænu bylgju en einn af yfirstílistum drottningarinnar tilkynnti að hún vilji ekki lengur sjá loðfeldi. Billie Eilish vakti einnig athygli á þessu í fyrra þegar hún samþykkti að klæðast kjól eftir Oscar de la Renta á glæsiballinu Met Gala í skiptum fyrir það að hönnuðurinn samþykkti að sniðganga loðfeld algjörlega í hönnun sinni.