Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta, en það breyttist þó fljótt í öðrum leikhluta. Heimamenn skoruðu fyrstu 15 stig fjórðungsins og náðu fljótt 19 stiga forskoti. Tryggvi og félagar náðu að klóra lítillega í bakkann fyrir hálfleik, en staðan var 40-25 þegar gengið var til búningsherbergja.
Meira jafnræði myndaðist aftur með liðunum eftir hálfleikinn og heimamenn héldu forskoti sínu. Þeir náðu svo mest 28 stiga forskoti í lokaleikhlutanum og unnu að lokum öruggan 21 stigs sigur, 94-73.
Eins og áður segir skoraði Tryggvi 13 stig fyrir Zaragoza í kvöld, en hann tók einnig sjö fráköst og gaf eina stoðsendingu. Tryggvi og félagar sitja í tólfta sæti deildarinnar með 16 stig eftir 21 leik, tólf stigum á eftir Manresa sem situr í þriðja sæti.