Djokovic er harður á andstöðu sinni við að fara sjálfur í bólusetningu en segist samt ekki vera á móti bólusetningum heilt yfir. „Ég hef aldrei sagt að ég væri hluti af þeirri hreyfingu,“ sagði Novak Djokovic í viðtali við breska ríkisútvarpið.
Hann vill fá að taka sína eigin ákvörðun. „Grundvallaratriði ákvörðunartöku minnar í sambandi við minn líkama skipta meira máli en að vinna titla eða nokkuð annað,“ sagði Djokovic.
„Ég er að reyna að vera í tengslum við minn líkama eins mikið og ég mögulega get. Miðað við allar þær upplýsingar sem ég var með í höndunum þá tók ég þá ákvörðun að láta ekki bólusetja mig,“ sagði Djokovic en útilokaði þó ekki að það gæti breyst.
Það sem breytist ekki er að hann mun ekki fórna þessum hugsjónum sínum fyrir möguleikann á því að verða sá sigursælasti í sögunni.
Djokovic sagðist nefnilega í viðtalinu að hann myndi fórna risamótum í framtíðinni þar sem skylda væri að vera bólusettur. „Já það er fórnarkostnaður sem ég er tilbúinn að greiða,“ sagði Djokovic. Hann hefur titil að verja bæði á Wimbledon mótinu sem og á opna franska meistaramótinu.
Djokovic var sigurstranglegur á Opna ástralska mótinu í janúar og hefði orðið sá sigursælasti í sögunni með því að vinna það mót þriðja árið í röð. Þess í stað var hann rekinn úr landi og Spánverjinn Rafael Nadal nýtti sér það og varð sá fyrsti til að vinna 21 risatitil. Fyrir mótið voru Djokovic, Nadal og Roger Federer allir jafnir með tuttugu risatitla.
Djokovic er yngstur af þeim þremur og var líka á mikilli siglingu þegar bólusetningarmálið fór að trufla hans þátttöku á tennismótum.