Tóku ákvörðun um að gera Harm
„Ég var að klára námið mitt í Borgó og Anton sem er meðleikstjóri, hann var að klára kvikmyndanám í Los Angeles þegar hann þurfti að koma heim vegna Covid. Þá hugsuðum við með okkur eigum við ekki bara að gera mynd og hoppa á þetta?“

Segir Ásgeir og í framhaldinu var tekin ákvörðun um að framleiða Harm.
Ásgeir hafði skrifað handritið sumarið áður og sagan um bræðurna var lengi búin að vera í hausnum á honum. Myndin er um hinn tvítuga Óliver sem býr með móður sinni og yngri bróður. Þegar móðir hans byrjar aftur í neyslu, neyðist Óliver til að leita að yngri bróðir sínum í undirheimunum yfir eina örlagaríka nótt.
„Við Anton höfum svona í gegnum árin verið að safna að okkur kvikmyndabúnaði svo við áttum þannig séð sjálfir framleiðslufyrirtæki ef svo má segja,“
segir Ásgeir og er augljóst að ástíðan fyrir verkefninu var gríðarleg. Í framhaldinu höfðu þeir samband við vini sína sem voru til í ævintýrið og framleiðsla á myndinni hófst.

Fjármagnið allt út eigin vasa
„Þetta er í rauninni allt úr okkar eigin vasa. Við fjármögnum hana sjálfir og eigum hana alveg sjálfir.“
Segir Ásgeir um fjármögnunarferli myndarinnar.
„Auðvitað vorum við ekki með svaka pening fyrir þetta verkefni, voru nánast bara sumarlaunin okkar sem við notuðum til þess að búa til bíómynd“
Stórir leikarar sem sáu drifkraftinn
Helsti kostnaður myndarinnar voru laun leikaranna sem eru ekki af verri endanum. Með aðalhlutverk fara Ásgeir Sigurðsson, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir og Jónas Björn Guðmundsson. Aðrir leikarar í myndinni eru meðal annars Aldís Amah Hamilton, Jóel Sæmundsson og Mikael Kaaber.
„Þau voru bara ótrúlega tilbúin að hoppa á vagninn með okkur. Þau sáu bara drifkraftinn og ástríðuna á bakvið þessa sögu og hversu mikið okkur langaði að segja hana“
segir Ásgeir um stórleikarana sem eru í verkefninu.

Viðbrögðin hafa farið fram úr öllum væntingum
Upphaflega var planið ekki að gefa myndina út heldur vildu þeir aðeins fá að gera það sem þeir elska mest, búa til kvikmyndir. Þegar Harmur var tilbúin byrjaði hún að komast inn á virtar erlendar kvikmyndahátíðir.
Hún komst meðal annars inn á Rhode Island International Film Festival þar sem þeir hlutu Directioral Discovery verðlaunin fyrir leikstjórn sína í myndinni. Eftir að þeir hlutu verðlaunin leyfðu þeir sér að hugsa stærra en fram að því höfðu þeir ekki sýnt neinum myndina. Hún komst einnig inn á Oldenburg kvikmyndahátíðina í Þýskalandi þar sem myndin var frumsýnd í Evrópu.
„Við hugsuðum að það væri enginn að fara að taka áhættu með tvo nýútskrifaða stráka svo við tókum áhættuna sjálfir og það hefur heldur betur borgað sig,“
bætir Ásgeir við.
„Við erum búnir að selja til RÚV og bandarískt stórfyrirtæki er búið að kaupa heimsréttin á henni svo allt gott sem gæti gerst er búið að gerast“ segir Ásgeir að lokum og það fer ekki á milli mála að þetta er bara byrjunin hjá þeim félögunum.
Forsýning myndarinnar er í kvöld en hún fer í almenna sýningu um helgina.