Að því er kemur fram í tilkynningu um málið hefur Atli Stefán rekið ráðsölustofuna Koala síðastliðin sjö ár auk þess sem hann er meðstofnandi Vegangerðarinnar, sem framleiðir vistvæna íslenska matvöru. Þá stýrir hann hlaðvarpinu Tæknivarpið sem kemur út vikulega.
Atli Stefán hefur verið virkur þátttakandi í grasrótarstarfi Pírata og hefur að eigin sögn stutt við stefnumótun undanfarin þrjú ár. Þá hefur hann búið nær alla sína ævi í Reykjavík, með stuttri viðkomu í Danmörku.
„Ég elska Reykjavíkurborg og ég hef séð hana þroskast og dafna síðastliðin ár. Reykjavík fór úr því að vera lítill bær með nokkur úthverfi í að vera höfuðborg í vinnslu. Til að móta og viðhalda góðu samfélagi þarf fagleika, gagnsæi og samvinnu,“ segir Atli Stefán.
„Tökum góðar ákvarðanir saman og útfærum þær af vandleika. Píratar hafa verið að skila góðu starfi í borginni og ég tel mig geta veitt því öfluga teymi stuðning.” segir hann enn fremur.
Prófkjör Pírata í Reykjavík fer fram dagana 22. til 26. febrúar.