Gestirnir í Murcia voru mun sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta. Þeir skoruðu níu af fyrstu ellefu stigum leiksins og leiddu með 14 stigum að leikhlutanum loknum, 28-14.
Murcia náði tuttugu stiga forskoti snemma í öðrum leikhluta og hélt því forskoti fram að hálfleik. Þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 52-33, Murcia í vil.
Martin og félagar mættu hins vegar dýrvitlausir til leiks í síðari hálfleik, en Valencia skoraði fyrstu 22 stig þriðja leikhlutans og náði forystu. Liðið leiddi með þremur stium þegar komið var að lokaleikhlutanum, 64-61.
Mikið jafnræði var með liðunum í fjórða leikhluta og engin afgerandi forysta náðist. Gestirnir í Murcia leiddu með einu stigi þegar hálf mínúta var til leiksloka og heimamenn klikkuðu á sinni sókn. Murcia jók muninn í þrjú stig af vítalínunni þegar tæpar átta sekúndur voru eftir á klukkunni og heimamenn fengu því eina lokatilraun til að jafna metin. Þeir klikkuðu hins vegar á lokasókninni og gestirnir fögnuðu þriggja stiga sigri, 86-83.
Martin Hermannsson skoraði tíu stig fyrir Valencia, ásamt því að taka fimm fráköst og gefa þrjár stoðsendingar. Liðið er úr leik, en Murcia mætir annað hvort Barcelona eða Baxi Manresa í undanúrslitum á morgun klukkan 20:30.