Pútín sagði að það væri óhjákvæmilegt að til átaka kæmi milli rússneskra og úkraínskra hersveita. Hann sagði einnig að Rússar ætli sér ekki að hernema úkraínskt landsvæði.
Pútín sagði í ávarpi sínu að markmið Rússa með aðgerðunum væri að brjóta niður hernaðarmátt Úkraínu og „að afmá nasismann“ sem hann segir grassera í landinu.
Rússar gætu ekki lengur sætt sig við það sem hann lýsir sem hótunum af hendi Úkraínumanna. Hvatti hann jafnframt úkraínska hermenn til að leggja niður vopn og að Úkraínustjórn bæri ábyrgð á öllum þeim blóðsúthellingum sem kynnu að verða.
Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur hafnað því að verið sé að ráðast á úkraínskar borgir heldur sé spjótum beint að innviðum úkraínska hersins, varnarkerfum og flugher landsins. Hátæknivopnum, mjög nákvæmum, séu notuð til þess, að því er segir í rússneska fjölmiðlinum RIA.
Í ávarpi sínu varaði rússneski forsetinn jafnframt við því að önnur ríki færu að skipta sér af deilunni. Rússar myndu þannig bregðast við undir eins færi einhver þriðji aðili að skipta sér af.