Sigrún Ósk heimsótti Jón Jónsson á hljómsveitaræfingu og fékk að fara með honum á rúntinn, en í viðbót við hefðbundið tónlistarstúss er að ýmsu að huga hjá honum í undirbúningi fyrir undankeppnina sem hefst á laugardag, en þar er hann kynnir í Söngvakeppninni.
Á rúntinum ræðir Jón um tónleika sem hann stendur fyrir 18. mars í Bæjarbíói.
„Ég er aðeins að svindla á liðinu, ég skulda tónleika í Hörpunni sem ég setti í sölu fyrir tveimur árum en þeir eru í maí. Þetta er fyrir sanna JJ aðdáendur,“ segir Jón og hlær.
„Ég hef ekkert alltaf verið klár með snakkið og glimmerjakkann þegar kemur að Eurovision en Ragnhildur Steinunn dró mig inn í þetta fyrir fjórum árum og ég ætlaði ekkert að vera með. Það voru tveir dagar í fyrstu keppnina og þá stoppaði hún mig á ganginum á RÚV og spurði mig hvort ég vildi vera með. Hún var þarna búin að vinna alla vinnuna og ég var bara að lesa einhvern texta á skjá,“ segir Jón.
Jón segir að hann hafi reglulega verið beðinn um að flytja lag í forkeppninni hér á landi sjálfur.
„Það hefur aldrei verið þannig að ég hafi hugsað að þetta væri málið. Ég sagði um daginn að það væri kannski fallegt að ég og Frikki myndum fara í þetta sem einhverjir Olsen bræður, bara seinna.“
Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.