Fótbolti

Guardiola: „Allir hlusta á Carson þegar hann talar“

Atli Arason skrifar
Scott Carson skipt inn á leikvöllinn fyrir Ederson í leiknum í kvöld.
Scott Carson skipt inn á leikvöllinn fyrir Ederson í leiknum í kvöld. Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var ánægður að vera kominn áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir samanlagðan 5-0 sigur á Sporting frá Lisbon. Guardiola hrósaði sérstaklega hinum 36 ára gamla þriðja markverði liðsins, Scott Carson.

„Scott er mjög mikilvægur fyrir okkur,“ sagði Pep Guardiola, eftir leikinn.

„Hann er í miklum metum í búningsklefanum. Allir hlusta á Carson þegar hann talar og í kvöld var hann með bestu markvörslu leiksins.“

Carson spilaði sinn annan leik á ferlinum í Meistaradeildinni þegar hann kom inn á leikvöllinn á 73. mínútu leiksins. Síðasti leikur hans var í treyju Liverpool í 2-1 sigri liðsins gegn Juventus í apríl 2005. Englendingurinn sett því nýtt met í Meistaradeildinni þar sem tæp 17 ár eru á milli leikja hans.

Markvörðurinn á einmitt sama met í ensku úrvalsdeildinni þegar tæp 10 ár liðu á milli leikja hans þegar hann spilaði með Manchester City gegn Newcastle undir lok síðasta tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×