„Fordæmalaus vöxtur undanfarinna ára á Selfossi hefur kallað á miklar fjárfestingar Sveitarfélagsins Árborgar. Einna mest áberandi er þar Selfosshöllin, nýtt íþróttahús bæjarbúa, sem þegar hefur margsannað gildi sitt. Leikskólinn Goðheimar hefur reyndar kostað bæjarsjóð litlu minna og nýr Stekkjaskóli mun kosta margfalt meira. Allar þessar mikilvægu fjárfestingar verða ekki gerðar nema til komi lántaka og það er ánægjulegt að sjá það traust sem lánamarkaðurinn hefur á sveitarfélaginu,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Sveitarfélagið Árborg er fyrsti útgefandinn til að gefa út sjálfbærni skuldabréf hér á landi til fjármögnunar á verkefnum sem hafa umhverfis og eða félagslegan ávinning segir í frétt frá sveitarfélaginu. Skuldabréfin eru gefin út í þeim tilgangi að fjármagna græn og eða félagsleg verkefni í samræmi við Sjálfbærniumgjörð Árborgar (e. Sustainable Finance Framework).
Landsbankinn hf. hefur umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna sem og töku þeirra til viðskipta á „sustainable bond“ markað Nasdaq á Íslandi.