Úrslitin voru nokkuð óvænt í gærkvöldi. Að minnsta kosti fyrir þá sem tóku mark á veðbönkum sem höfðu spáð Reykjavíkurdætrum sigri.
Og það voru úrslitin einnig fyrir siguratriðið.
„Við áttum ekki alveg von á þessu. Þetta var svoldið óvænt,“ segir Sigga.
„Við erum ennþá bara í smá sjokki,“ tekur Beta undir.
Það sást enda á þeim systrum þegar þær stigu upp á svið í gær eftir að úrslitin höfðu verið tilkynnt.
„Við erum búnar að fá svona myndir af okkur þar sem við erum bara alveg hissa í framan,“ segir Elín.
Elska Reykjavíkurdætur
Eins og nánast hvert einasta ár eru ekki allir Íslendingar sammála um úrslit söngvakeppninnar.
Ýmsir netverjar kvörtuðu undan því að ná ekki í gegn um símkerfið í kosningunni og héldu sumir því fram að þar hefði sérstaklega hallað á Reykjavíkurdætur vegna bilunar í kerfinu.
Þetta þvertaka forsvarsmenn keppninnar fyrir og segja að sigur Eyþórsdætra hafi verið afgerandi.
„Við elskum Reykjavíkurdætur,“ segja systurnar.
„Við spáðum þeim sigri líka, héldum með þeim og bara allt. Fannst þær algjörlega geggjaðar. Það var heiður að fá að vera með þeim þarna.“
Ekki mestu Eurovision-aðdáendurnir
Þegar þær eru spurðar hvort þær séu miklir aðdáendur keppninnar kemur hik á systurnar.
„Sko, já og nei... bæði. Við þekkjum ekki stóru keppnina...“
„Þetta er allt svoldið nýtt fyrir okkur, verum nú bara alveg heiðarlegar þar,“ viðurkennir Elín loks. „En það er svo innilega raunverulegt að þetta er búið að vera skemmtilegasta verkefni sem við höfum tekið að okkur.“
Þær eru spenntar að komast út að keppa í Eurovision fyrir hönd Íslands.
„Þetta er bara ótrúlega gaman og skemmtilegt og takk fyrir að treysta okkur.“