Íslenski boltinn

Dóra María leggur skóna á hilluna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dóra María Lárusdóttir er búin að leggja skóna á hilluna frægu.
Dóra María Lárusdóttir er búin að leggja skóna á hilluna frægu. vísir/bára

Knattspyrnukonan Dóra María Lárusdóttir er búin að leggja skóna á hilluna. Hennar seinasti leikur á ferlinum var gegn Selfyssingum í lokaumferð Íslandsmótsins í fyrra þar sem Valskonur tóku á móti Íslandsmeistaratitlinum.

Þetta staðfesti Dóra í samtali við Fótbolti.net í dag, en hún lék allann sinn feril á Íslandi með Val. Dóra er 36 ára og á að baki 269 leiki í efstu deild á Íslandi þar sem hún skoraði 94 mörk.

Dóra reyndi fyrir sér í atvinnumennsku þegar hún lék með Djurgården í Svíþjóð árið 2011 og svo með brasilíska félaginu Vitoria fyrri hluta ársins 2012.

Ásamt öllum þessum leikjum í efstu deild á Íslandi lék Dóra María 114 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hún lagði landsliðskóna á hilluna árið 2017 eftir að hún sleit krossband á Algarve æfingamótinu.

Dóra María var gríðarlega sigursæl á sínum ferli með Val og vann átta Íslandsmeistaratitla, fimm bikarmeistaratitla og fjórum sinnum varð hún meistari meistaranna með félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×