Bankasýsla ríkisins tilkynnti í gær um sölu á 22,5% af útistandandi hlutafé Íslandsbanka í gær til fagfjárfesta sem jafngildir 450 milljón hlutum í bankanum. Söluverð var 117 krónur á hlut og nam söluvirði hlutarins því 52,65 milljörðum króna sem rennur til ríkisins.
Sölunni lauk snemma í morgun. Búið er að úthluta til fagfjárfesta samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Þá gætir nokkurrar óánægju innanlands með til hverra var úthlutað því íslenskir aðilar buðu í einhverjum tilvikum hærra verð í hlut ríkisins en útboðsgengið var og veruleg umfram eftirspurn var í útboðinu.
Bæði innlendir og erlendir hæfir fjárfestar sýndu útboðinu mikinn áhuga," segir í tilkynningu frá Bankasýslu ríkisins. Uppgjör viðskiptanna fara fram 28. mars næstkomandi.
Lífeyrissjóðir hafa að öllum líkindum sótt um að kaupa í útboðinu en nú eru þrír innlendir lífeyrissjóðir meðal sex stærstu hluthafa. En erlendur aðili er sá stærsti fyrir utan ríkið eða Capital Group.
Markaðsgengi hlutabréfa í Íslandsbanka var 122 krónur á hlut við lokun markaða í gær og var fyrir hádegi búið að hækka um ríflega 4 prósent. Verð til fagfjárfesta er því tæplega tíu prósent lægra en markaðsgengi dagsins í dag.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu frá greiningaraðilum á markaði er talsverð óánægja með að fagfjárfestar fái afslátt af markaðsgengi þar sem umfram eftirspurn var í útboðinu.
Með viðskiptunum fer hlutur ríkissjóðs í bankanum úr 65,0 í 42,5 prósent. Ríkið er þar með orðinn minnihlutaeigandi en Bankasýsla ríkisins fer áfram með eignarhlut ríkissjóðs.
Ríkisstjórnin hyggst selja eignarhlut ríkissjóðs í bankanum að fullu á næstu tveimur árum.