Frá þessu er greint á vef Fótbolta.net en þar er rætt við Rúnar Kristinsson, þjálfara KR, um meiðslin sem og Kristján Flóka sjálfan.
„Þetta lítur illa út og er mjög slæmt. Kristján Flóki er í gifsi og er að bíða eftir að komast í aðgerð. Þetta er fótbrot,“ sagði Rúnar en svo virðist sem lítið bein utanvert á fótleggnum hafi brotnað.
„Hann fékk greiningu seint í gærkvöldi og bíður nú eftir svari frá læknum um hvenær hann kemst í aðgerð,“ bætti Rúnar við en KR vann HK 1-0 í gær, fimmtudag.
„Ég verð frá í einhvern tíma, veit ekki nákvæmlega hversu langan,“ sagði Kristján Flóki sjálfur í viðtali við Fótbolti.net.
Þetta er mikið áfall fyrir KR-inga en Kristján Flóki hafði spilað vel á undirbúningstímabilinu og var ætlað stórt hlutverk hjá liðinu í sumar. Sérstaklega þar sem Kjartan Henry Finnbogason byrjar mótið í tveggja leikja banni og hefur verið að glíma við meiðsli það sem af er ári.
KR byrjar Bestu-deildina á útivelli gegn Fram þann 20. apríl en enn er óvíst hvar sá leikur fer fram.