Fótbolti

Alfons og norsku meistararnir hófu tímabilið á jafntefli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alfons Sampsted lék allan leikinn fyrir norsku meistarana í kvöld.
Alfons Sampsted lék allan leikinn fyrir norsku meistarana í kvöld. Stanislav Vedmid/DeFodi Images via Getty Images

Alfons Sampsted og félagar hans í Bodø/Glimt hófu titilvörnina í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á 2-2 jafntefli gegn Rosenborg í kvöld.

Alfons lék allan leikinn í hægri bakverði fyrir Bodø/Glimt í kvöld, en það voru gestirnir í Rosenborg náðu forystunni á 16. mínútu með marki frá Tobias Borkeeiet. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan var því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Amahl Pellegrino jafnaði metin fyrir Bodø/Glimt af vítapunktinum eftir rúmlega klukkutíma leik áður en Runar Espejord kom liðinu yfir þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Norsku meistararnir voru þó ekki lengi með forystuna því Tobias Borkeeiet jafnaði metin með öðru marki sínu aðeins sex mínútum síðar og þar við sat.

Niðurstaðan varð 2-2 jafntefli og liðin eru því bæði með eitt stig eftir fyrsta leik tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×