Sport

Getur ekki keppt vegna tannpínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norðmaðurinn Casper Ruud liggur hér á vellinum og fær aðstoð í úrslitaleiknum á Opna Miami mótinu. Tannpína var að angra kappann.
Norðmaðurinn Casper Ruud liggur hér á vellinum og fær aðstoð í úrslitaleiknum á Opna Miami mótinu. Tannpína var að angra kappann. AP/Wilfredo Lee

Norski tenniskappinn Casper Ruud vakti athygli um helgina þegar hann komst alla leið í úrslitaleikinn á Opna Miami mótinu.

Hann var með því fyrsti Norðmaðurinn sem kemst svo langt á svona sterku móti. Ruud þurfti á endanum að sætta sig við tap á móti Spánverjanum Carlos Alcaraz í úrslitaleiknum.

Næst á dagskrá hjá Norðmanninum átti að vera mót í Texas en ekkert verður þó af þátttöku hans þar.

Ruud varð að afboða sig vegna tannpínu. Hann er í vandræðum með endajaxlinn sinn.

Ruud sendi tennisáhugafólki í Houston skilaboð í gegnum Houston Chronicle.

„Hæ, Houston. Ég vildi bara biðjast afsökunar á því að geta ekki mætt á mótið ykkar í ár. Ég hlakkaði mikið til, að koma aftur til River Oaks til að reyna að vinna titilinn hjá ykkar klúbbi,“ sagði Casper Ruud.

„Síðustu tvo til þrjá daga þá hef ég verið í vandræðum með tannpínu í endajaxli og því miður en hún ekki að fara. Þetta er erfið ákvörðun en ég þarf að fara heim og láta laga þetta,“ sagði Ruud.

„Ég vona að ég komi aftur einhvern daginn og vonandi verður það bara strax á næsta ári,“ sagði Ruud.

Það er enginn vafi að því endajaxlinn hefur örugglega verið að trufla hann í úrslitaleiknum. Ruud var með hæstu styrkleikaröðun á mótinu í Houston en þetta er í fyrsta sinn síðan 2019 sem mótið er haldið því kórónuveiran sá til þess að mótið fór ekki fram 2020 og 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×