Fimm innlendir söluráðgjafar voru meðal þeirra sem sáu um að selja fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka í síðasta mánuði en samtals var kostnaður við útboðið um 700 milljónir króna sem er um 1,4% af sölandvirði bankans.
Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingar bendir á í skoðanagrein á Vísi í dag að 1,4% sölulaun séu mjög há fjárhæð til að koma bréfum til fjárfesta sem séu nú þegar komin á markað. Nær alltaf sé samið um mun lægri þóknanir þegar stærri fjárfestar og lífeyrissjóðir kaupa eða á bilinu 0,2-0,3%. Þá gagnrýnir hún að ráðgjafarnir hafi verið valdir án útboðs.
Íslensk verðbréf eru meðal þeirra fyrirtækja sem sáu um að selja hlut ríkisins í útboðinu. Þorbjörg Stefánsdóttir eiginkona Jóhanns M. Ólafsson framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa á helmingshlut í fyrirtækinu. Athygli vekur að þegar listi yfir kaupendur í útboði ríkisins á hlut Íslandsbanka í síðasta mánuði er skoðaður kemur í ljós að ÍV -eignastýring sem er í eigu Íslenskra verðbréfa kaupir fyrir tæpar 130 milljónir króna í útboðinu og Björg Finance kaupir fyrir 22 og hálfa milljón króna en það félag er svo í eigu fyrrnefndar Þorbjargar Stefánsdóttur. Ef Íslensk verðbréf hafa svo rukkað ríkið fyrir þessa sölu gæti eigandinn hafa fengið greitt fyrir að kaupa í Íslandsbanka.

Umsjónaraðili með útboðinu á Íslandsbanka var meðal annars fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun bankans.
Þegar listi yfir kaupendur er skoðaður kemur í ljós að Geir Oddur Ólafsson starfsmaður verðbréfamiðlunar bankans sem sá þá um útboðið keypti í bankanum fyrir rúma milljón. Brynjólfur Stefánsson sjóðsstjóri Íslandssjóða sem er í eigu Íslandsbanka keypti fyrir fjórar komma fimm milljónir króna. Íslandsbanki tilkynnti hins vegar ekki að þessir aðilar væru innherjar í útboðinu. En hefur þegar tilkynnt um þá Ríkharð Daðason fjárfesti og eiginmann samskiptastjórans, Ara Daníelsson, stjórnarmann í Íslandsbanka og og Ásmund Tryggvason, framkvæmdastjóra fyrirtækja og fjárfestasviðs. Auk fyrrgreindra starfsmanna keyptu þrír aðrir starfsfmenn í bankanum.
Ekki innherjar segir bankinn
Fréttastofa leitaði svara hjá bankanum um hvort ekki væri um innherja að ræða sem bæri að tilkynna þegar starfsmaður í verðbréfamiðlun sem sér um að selja í bankanum í útboðinu kaupir í sama útboði. Svar bankans var eftirfarandi:
Þessir starfsmenn eru ekki innherjar og því var ekki send tilkynning til Kauphallar vegna viðskipta þeirra. Samkvæmt lögum þarf að tilkynna viðskipti stjórnenda eins og gert var.
Tilkynnt var opinberlega eftir lokun markaða að útboð væri hafið og gafst þá öllum fagfjárfestum kostur á að taka þátt. Íslandsbanki var einn af átta söluaðilum.
Starfsfólk hafði þröngan tímaramma til að skila inn áskrift og fá leyfi regluvörslu bankans fyrir kaupunum.
Starfsmenn sem tóku þátt eru skilgreindir sem fagfjárfestar.
Starfmenn sem tóku þátt voru 8 talsins.