Handbolti

Ummælum Arnars Daða vísað til aganefndar

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Daði Arnarsson lét dómarana heyra það eftir dýrkeypt eins marks tap Gróttu gegn ÍBV í gærkvöld.
Arnar Daði Arnarsson lét dómarana heyra það eftir dýrkeypt eins marks tap Gróttu gegn ÍBV í gærkvöld. vísir/Elín

Framkvæmdastjóri HSÍ hefur vísað ummælum Arnars Daða Arnarssonar, þjálfara Gróttu, til aganefndar þar sem hann telur þau óíþróttamannsleg og skaða ímynd handknattleiksíþróttarinnar.

Arnar Daði var ómyrkur í máli eftir eins marks tap Gróttu gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í gærkvöld, í næstsíðustu umferð Olís-deildar karla í handbolta.

Jafntefli hefði dugað Gróttu til að geta spilað úrslitaleik við KA í lokaumferðinni um sæti í úrslitakeppninni.

ÍBV vann leikinn hins vegar með marki þegar tvær sekúndur voru eftir en Arnar Daði var sérlega óhress með dómgæsluna á lokakafla leiksins. Ekki síst þá staðreynd að dómararnir skyldu ákveða að stöðva leiktímann eftir að Grótta fékk vítakast þegar um tíu sekúndur voru eftir, í stað þess að leiktíminn rynni út og að vítakastið yrði það síðasta sem gerðist í leiknum.

Ummælin sem Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, hefur vísað til aganefndar birtust á mbl.is eftir leik og voru svohljóðandi:

„Ég skil ekki þá ákvörðun, ég hefði skilið það ef þeir ætla að gefa tvær mínútur, þá geta þeir fríað sig þannig. Að dæma víti, 10 sekúndur eftir, enginn að biðja um neitt og þeir stoppa tímann. Örugglega bara af því að þeir vildu að ÍBV myndi vinna leikinn, eða allavega fá tækifæri til að vinna leikinn, það er eina skýringin sem ég sé, sem þjálfari Gróttu, að dómararnir vildu sjá ÍBV fá tækifæri til að vinna þennan leik.“

Róbert telur að með þessum ummælum sé vegið að heiðarleika dómara leiksins og að þau séu ekki í anda íþróttarinnar.

Arnar Daði gæti samkvæmt lögum HSÍ átt yfir höfði sér áminningu, sekt eða jafnvel leikbann vegna ummæla sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×