Fótbolti

Risasigur lyfti Hollendingum á topp íslenska riðilsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hollendingar unnu bara nokkuð sannfærandi í kvöld.
Hollendingar unnu bara nokkuð sannfærandi í kvöld. Rico Brouwer/Soccrates/Getty Images

Hollenska kvennalandsliðið í fótbolta vann vægast sagt sannfærandi 12-0 sigur er liðið tók á móti Kýpur í C-riðli okkar Íslendinga í undankeppni HM sem fram fer á næsta ári.

Það tók hollenska liðið heilar 23 mínútur að brjóta ísinn gegn Kýpur í kvöld og við það opnuðust allar flóðgáttir. Vivianne Miedema var búin að skora þrennu áður en flautað var til hálfleiks og tvö mörk frá Jill Roord sáu til þess að staðan var 5-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Hollendingar höfðu sömu yfirburði í síðari hálfleik og bættu öðrum sjö mörkum við. Vivianne Miedema skoraði þrjú í viðbót og þar með endaði hún leikinn með sex mörk. Jill Roord fullkomnaði þrennu sína og Sherida Spitse, Lineth Beerensteyn og Esmee Brugts skoruðu allar eitt mark í síðari hálfleik.

Niðurstaðan varð því 12-0 sigur Hollendinga og liðið lyfti sér á topp C-riðils. Hollendingar eru nú með 14 stig eftir sex leiki, tveimur stigum meira en íslenska liðið sem situr í öðru sæti. Íslensku stelpurnar hafa þó leikið einum leik minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×