Elín Jóna Þorsteinsdóttir meiddist í leiknum gegn Svíþjóð á miðvikudaginn. Landsliðsþjálfarinn Arnar Pétursson vildi hafa vaðið fyrir neðan sig og tók Margréti því með út til Serbíu.
Margrét hefur ekki leikið fyrir A-landsliðið áður en ef Elín Jóna nær sér ekki góðri gæti Margrét þreytt frumraun sína með landsliðinu í hreinum úrslitaleik um sæti á EM. Auk Margrétar og Elínar Jónu er Hafdís Renötudóttir, markvörður Fram, í íslenska hópnum.
Ísland er með fjögur stig í 3. sæti riðilsins, tveimur stigum á eftir Serbíu sem er í 2. sætinu. Svíþjóð er með átta stig á toppi riðilsins og komið áfram á EM.
Íslendingar unnu fyrri leikinn gegn Serbum, 23-21, og ef þeir endurtaka leikinn á morgun komast þeir á stórmót í fyrsta sinn í áratug.
Margrét, sem er 21 árs, var með 33,7 prósent markvörslu í Olís-deildinni í vetur. Hún fékk stærra hlutverk í liði Hauka eftir að hin færeyska Annika Fríðheim Petersen fór til Danmerkur.
Leikur Íslands og Serbíu hefst klukkan 16:00 á morgun og verður í beinni textalýsingu á Vísi.