Í miðbæ Reykjavíkur var mikið mannlíf í dag og voru útisvæði veitingastaða vel nýtt. Fyrir utan Duck & Rose var allt troðfullt.
„Það er greinilegt að sumarið er komið,“ sagði Snorri Björgvin Magnússon, veitingastjóri Duck & Rose í samtali við fréttastofu í dag. „Austurvöllurinn er bara búinn að vera pakkaður í allan dag.“
Snorri segir að það hafi alls ekki skemmt fyrir að á Austurvelli hafi verið að mótmæla sölu ríkisins á Íslandsbanka.
„Við slepptum páskahretinu greinilega, það er bara beint í sumar,“ sagði Snorri aðspurður hvort sumarið væri komið.
Á morgun er einnig spáð mikilli sól á suðvesturhorninu sem og víðast hvar um landið. Hiti gæti farið upp í fjórtán gráður í Árnesi en haldast um átta gráður um mest allt land.