Sport

Raducanu leitar að fjórða þjálfaranum á einu ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emma Raducanu varð fyrsta breska konan til að vinna risamót þegar hún hrósaði sigri á Opna bandaríska meistaramótinu á síðasta ári. Hún tapaði ekki setti á mótinu.
Emma Raducanu varð fyrsta breska konan til að vinna risamót þegar hún hrósaði sigri á Opna bandaríska meistaramótinu á síðasta ári. Hún tapaði ekki setti á mótinu. getty/Robert Prange

Breska tenniskonan Emma Raducanu hefur ákveðið að skipta þjálfaranum sínum út eftir aðeins fimm mánaða samstarf.

Í nóvember á síðasta ári staðfesti Raducanu að Þjóðverjinn Torben Beltz væri nýr þjálfari hennar. Nú, aðeins tæpu hálfu ári seinna, er samstarfi þeirra lokið.

„Ég vil þakka Torben fyrir þjálfunina, fagmennskuna og hollustuna síðasta hálfa árið. Hann er með stórt hjarta og við náðum vel saman,“ sagði Raducanu.

Hún hefur verið dugleg að skipta um þjálfara en sá sem tekur við af Beltz verður fjórði þjálfari Raducanus á einu ári. Nigel Sears var þjálfari hennar á Wimbledon á síðasta ári en Andrew Richardson tók við af honum fyrir Opna bandaríska meistaramótið sem hún vann.

Raducanu, sem er 11. sæti heimslistans, keppir á Madrid Open um helgina. Iain Bates verður þjálfari hennar á meðan mótinu stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×