Tenging við barnæskuna
Jón segir hugmyndina að sýningunni hafi kviknað síðastliðin jól.
„Ég var búinn að taka eftir sýningu í sendiráðinu hjá Hendrikku Waage síðastliðinn nóvember, fór að forvitnast og í kjölfarið bauð Þurý mér að setja upp sýningu.“

Fyrir Jóni Sæmundi er listsköpun andleg iðkun, leikur og tenging við náttúruna og heiminn í kring. Frá barnæsku hafa fossarnir náð til Jóns, en að ungum aldri eyddi hann mörgum sumrum á Kleifárvöllum í Miklaholtshreppi með fjölskyldu sinni. Í fjallinu fyrir ofan bæinn runnu þrír fossar úr einum hamri og lýsir Jón þessu sem einkaleikvelli sínum sem barn.

Fossar í ólíkum formum
Undanfarna áratugi hefur hann reglulega málað Gullfoss í mismunandi útgáfum sem og aðra íslenska fossa en hann hefur einnig safnað gömlum svarthvítum póstkortum af íslenskum fossum og landslagi. Nýverið hóf hann að útfæra þau í málverk og silkiþrykk á bæði við og striga. Ásamt því hefur hann ferðast um Ísland og tekið upp myndbönd og hljóð af fossum og má segja að fossarnir heilli hann upp úr skónum.

„Ég varpaði fossi á gömlu Morgunblaðshöllina árið 2002 með hljóði og kom hann virkilega vel út. Ég vildi endurtaka leikinn núna með því að varpa nýju verki af Gullfossi utan á Dönsku sendiráðsbygginguna í London. Þetta er svört bygging hönnuð af Arne Jacobsen og hentar vel til verksins. Danirnir tóku vel í þetta en leyfið frá eiganda garðins fyrir framan fékkst ekki í tæka tíð, en gæti komið síðar,“ segir Jón að lokum.



Sýningin opnaði 6. maí síðastliðinn og stendur til 24. Júní. Hægt er að hafa samband við sendiráðið og panta heimsóknartíma.