Leigubílafrumvarpið hefur verið nokkuð til umfjöllunar eins og sjá má hér undir í „tengdum greinum“. Ekki voru mikil átök um málið á þinginu heldur ræddu þingmenn ýmsa núansa á því.
Dýrir leigubílarnir í Osló
Tómas, sem betur er þekktur sem Tommi á Tommaborgurum, steig í ræðupúlt og vildi hins vegar deila með viðstöddum reynslu sinni af leigubílum. Hér og þar í veröldinni:
Í Buenos Aires í Argentínu, þar segir Tommi að ekki sé nokkurt mál að fá leigubíl, þeir séu hvarvetna og allstaðar við hendina.
Þegar Tommi er í New York þá tekur hann ýmis Taxi eða Uber og segir að þar sé um áþekka þjónustu að ræða.
Í London bregður svo við, að sögn Tomma, að þar þurfa menn sem vilja gerast leigubílsstjórar að keyra um borgina í sex mánuði og læra göturnar utanbókar, sem skipta þúsundum. Í Uber noti þeir hins vegar google maps.
Þeir sem eru í L.A. í Bandaríkjunum, þeim dettur ekki í hug annað en leigja sér bíl.
„Í Róm, þar er alltaf reynt að svindla á mér,“ sagði Tommi og sagði að ýmsu að hyggja. Og nú tók að draga að því sem hann vildi til málanna leggja efnislega.
Þegar Tommi var í Osló 2015 kostaði 34 þúsund krónur að fara með leigubíl af flugvellinum niðrí bæ. Þetta þykir Tomma dýrt og er ekki einn um það.

Vill lækka verð á bensíni fyrir leigubílsstjóra
Þá vék Tommi máli sínu að leigubílum í Reykjavík. Þeir séu frekar dýrir. Og þeir verði að vera dýrir því það er dýrt að búa á Íslandi og bensínið er dýrt. Því vildi Tommi gera það að tillögu sinni að athugað yrði hvort ekki væri vert að leigubílsstjórum sé gert kleift að kaupa bensín á niðursettu verði. Ef það kynni að verða til þess að lækka gjaldið fyrir farþegana.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar sem hefur látið sig þessi mál mjög varða, var næst í púlt og þakkaði „áhugaverða yfirreið yfir leigubílamarkað heimsins“. Hanna Katrín sagði að nú sæist fyrir enda á því tímabili þar sem þeim sem efni hafa á fá afslátt á kaupum á rafmagnsbílum. Hvort ekki væri betri hugmynd að framlengja það ef um leigubíla er að ræða sem hefði sömu verðáhrif en töluvert betri umhverfisáhrif.