Handbolti

Erlingur: Vantar þriðja dómarann í þessa íþróttagrein

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erlingur Richardsson vonast til að sínir menn geti byggt ofan á seinni hálfleikinn í kvöld.
Erlingur Richardsson vonast til að sínir menn geti byggt ofan á seinni hálfleikinn í kvöld. vísir/hulda margrét

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var skiljanlega svekktur eftir tapið fyrir Val í fyrsta leik úrslita Olís-deildar karla í kvöld, 35-25.

„Við tókum aðeins á því í seinni hálfleiknum en ekki í þeim fyrri. Þetta var ekki fallegur leikur og ég veit ekki alveg hvað ég á að segja,“ sagði Erlingur við Vísi eftir leik.

„Í fyrsta lagi komum við ekki alveg nógu vel stemmdir inn í leikinn. Það er númer 1, 2 og 3. Það er líka langt síðan við spiluðum og við misstum kannski smá taktinn milli leikja. En ég lofa þér því að við erum komnir í takt.“

Erlingur vildi ekki fella stóra dóm yfir dómgæslunni í leik kvöldsins en sagði að gera þyrfti breytingar á handboltaíþróttinni.

„Það er voðalega erfitt að segja. Við spiluðum auðvitað illa. En ég er búinn að segja það ansi oft að það vantar þriðja dómarann í þessa íþróttagrein ef við ætlum að laga hana eitthvað. Það er erfitt að dæma hana,“ sagði Erlingur.

„Það er mikið af bakhrindingum og fautaskap og við erum langt á eftir körfunni þarna. En við þurfum að hugsa um okkur sjálfa núna, stilla okkur af og reyna að finna svör.“

Sem fyrr keyrðu Valsmenn upp hraðann og skoruðu hvorki fleiri né færri en fimmtán mörk eftir hraðaupphlaup í leiknum.

„Þeir nýttu það en við misstum boltann fyrir miðju varnarinnar hjá þeim. Við skutum líka illa á Bjögga [Björgvin Pál Gústavsson] í fyrri hálfleik þar sem hann var frábær. Við gerðum betur í seinni hálfleik, það kom smá taktur og við getum byggt á því,“ sagði Erlingur að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×