Þetta hefur fréttastofa AP eftir heimildum en fram kemur í fréttinni að ákæran verði á alríkisstigi, sem getur leitt til mun harðari refsingar en annars. Lögreglumenn FBI handtóku Antle á föstudag og honum verður haldið í gæsluvarðhaldi í J. Reuben Long gæsluvarðhaldsfangelsinu í Conway í Suður-Karólínu yfir helgina.
Antle er eigandi vinsæla Myrtle Beach dýragarðsins í Suður-Karólínu. Hann vakti mikla athygli þegar honum brá fyrir í Netflix-þáttunum Tiger King: Murder, Mayhem and Madenss, sem voru gefnir út á streymisveitunni árið 2020.
Þættirnir eru heimildaþættir og fjölluðu um þá sem rækta tígrisdýr og reka dýragarða fyrir stóra ketti í Bandaríkjunum. Áhersla var lögð á Joe Exotic, sem rak einn slíkan dýragarð í Oklahoma, og hefur verið skotspónn dýravelferðarsinna fyrir meint dýraníð og var svo sakfelldur og dæmdur í fangelsi fyrir að hafa skipulagt morð á óvini sínum Carole Baskin.
Talið er líklegt að ákærurnar, sem gefnar verða út á hendur Antle, tengist ásökunum um peningaþvætti. Þetta hefur AP eftir heimildamanni.

Dýravelferðarsinnar hafa sakað Antle um að hlúa illa að dýrunum sínum, ljónum og fleiri dýrum. Hann var árið 2020 ákærður fyrir dýraníð í Virginíu og fyrir smygl á dýrum.
Í maí á þessu ári óskuðu samtökin People for the Ethical Treatment of Animals eftir því við skattyfirvöld í Bandaríkjunum að rannsaka Rare Species Fund, sjóð í eigu Antler sem átti að stuðla að verndun dýralífs. Dýraverndunarsamtökin PETA hafa haldið því fram að hluti sjóðspeninganna hafi farið í dýragarðinn hans í Myrtle Beach, sem er brot á lögum um peningaþvætti.
Aðalmeðferð í máli hans í Virginíu mun fara fram í næsta mánuði en hann er ákærður fyrir brot á lögum um smygl á dýrum og fyrir að hafa brotið slík lög af yfirlögðu ráði. Þau brot eru á alríkisstigi. Þá er hann einnig ákærður fyrir þrettán minniháttar brot á lögum um dýr í útrýmingarhættu og fyrir slæma meðferð á dýrum í tengslum við flutning hans á ljónshvolpum.
Antle á langan sakaferil, sem rekja má allt aftur til ársins 1989 þegar hann var sektaður fyrir að hafa yfirgefið dádýr og páfugla í dýragarðinum sínum í Virginíu. Síðan þá hefur hann brotið lög um dýravelferð oftar en 35 sinnum.